Það er mjög mikilvægt að fylgjast með gasdreifikerfum þar sem lekar geta orðið allsstaðar í kerfinu, sérstaklega við tengingar. Gasbúnaður og úttaksstöðvar aðstoða við að geyma gastegundir rétt, stýra flæði þess og þrýstingi og koma í veg fyrir stórslys vegna gasleka. Við hjá Linde (fyrrum ÍSAGA) og samstarfsaðilar okkar bjóða upp á fjölbreytt úrval gasbúnaðar, svo sem úttök, þrýstijafnara og loka sem uppfylla allar kröfur um öryggi.
NOTIÐ ALDREI LOGA ÞEGAR GASLEKA ER LEITAÐ!
Það er mjög mikilvægt að allur búnaður sem tengist gasdreifikerfi sé skoðaður og lekaleitaður eftir uppsetningu og lagfæringar gerðar sé þess þörf áður en búnaður er tekinn í notkun.
Notið ávallt búnað sem ætlaður er til lekaleitar. Lekaleitarúði Linde (fyrrum ÍSAGA) (TL-4) er tilvalinn fyrir iðnaðarkerfi. Notið ekki sápuvatn eða uppþvottalög. Gangið úr skugga um að lekaleitarbúnaðurinn henti fyrir þau efni sem notuð eru í kerfinu. Lekaleit á að framkvæma við öll samtengi.
Lekaleitið allar samtengingar eða staði þar sem leki getur orðið, svo sem við tengingu loka við þrýstijafnarann.
Það á aldrei að setja lekaleitarefni inn í hylkjaloka. Ef froðumyndun á sér stað skal taka þrýstinginn strax af kerfinu, yfirfara útbúnað og útiloka leka. Notið ekki búnaðinn fyrr en lekinn hefur verið lagaður. Þurrkið tæki og búnað með þurrum klút eftir að lekaleit hefur farið fram. Þegar lekinn hefur verið stöðvaður, skolið þá allt loft af kerfinu áður en notkun hefst að nýju.
Leitið reglulega að göllum og leka
Slöngur sem leka, eru sprungnar, með brunablettum eða yfirborðsskemmdum skal skipta út með nýjum slöngum sem ætlaðar eru fyrir viðkomandi gastegund og notkun.
Skoðið suðu- eða skurðartækin reglulega. Ef þau stíflast eða eru við það að stíflast, hreinsið þau eða endurnýið.
Haldið búnaði hreinum. Sérstaklega á þetta við um þrýstijafnara fyrir súrefni, þá skal geyma á hreinum stað þegar þeir eru ekki í notkun. Ef þrýstijafnari virkar ekki sem skyldi, endurnýið hann strax.
Leki þar sem loki gengur niður í hylki
Leki milli hylkis og loka gefur frá sér blístur/hvæs og lyktar ef um brennanlegar gastegundir er að ræða. Notið ekki hylkið og reynið ekki að lagfæra lekann. Flytjið hylkið á svæði þar sem lekinn dreifist á öruggann hátt, merkið það og látið okkur vita. ATH! Ef þrýstijafnarinn er bilaður er hægt að fá nýjan hjá okkur og samstarfsaðilum okkar.
Þegar um þrýstijafnara með þrýstimælum er að ræða, skal ekki taka þrýstimælana af, skipta um eða fikta við þá. Ef þrýstimælir lekur, takið þá allan þrýstijafnarann af og farið með hann til birgja og fáið ráðleggingar.